Ársskýrsla Íslandsstofu er að þessu sinni gefin út á krefjandi tímum í íslensku atvinnulífi. Um allan heim glíma þjóðir við farsótt sem fáa hefði órað fyrir að gæti valdið viðlíka usla í veröldinni. Á örfáum vikum hefur heimsmyndinni verið breytt, og við stöndum frammi fyrir dýpstu efnahagslægð sem við höfum séð í hundrað ár. Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að takast á við þetta verkefni sem þjóð og það hefur verið í senn uppörvandi og traustvekjandi að fylgjast með því hvernig íslensk heilbrigðisyfirvöld, almannavarnir og aðrir sem að verkinu hafa komið hafa stýrt för, með þeim árangri að svo virðist sem farsóttin sé á hraðri niðurleið hér á landi. Þessi viðbrögð hafa vakið verðskuldaða athygli utan Íslands og leikur ekki vafi á því að það mun hafa áhrif á stöðu þjóða og ímynd til framtíðar hvernig þær tókust á við COVID 19. Nú stöndum við frammi fyrir ekki síður mikilvægu verkefni sem er að koma gangverki efnahagslífsins af stað eins hratt og örugglega og mögulegt er. Þar munum við Íslendingar sem fyrr reiða okkur á útflutningsatvinnugreinarnar, velgengni þeirra er grunnur að velsæld þjóðarbúsins.
Árið 2019 var ár breytinga hjá Íslandsstofu. Stjórn og starfsfólk vann að því að móta stefnu fyrir íslenskar útflutningsgreinar í víðtæku samráði við fyrirtæki um land allt. Þetta var afar gefandi starf og ljóst að tækifærin eru víða. Okkar hefðbundnu útflutningsgreinar; sjávarútvegur, ferðaþjónusta og orkusækinn iðnaður standa vissulega frammi fyrir margvíslegum áskorunum, en þessar greinar byggja á traustum grunni og tækifæri þeirra felast ekki síst í því að auka virði vöru og þjónustu, meðal annars með öflugu markaðsstarfi. Takmarkað eðli náttúruauðlinda setur vexti þessara atvinnugreina hins vegar skorður og nauðsynlegt er að vöxtur í þeim greinum byggi á sjálfbærri nýtingu auðlinda, með hugvitið að vopni.
„Árið 2019 var ár breytinga hjá Íslandsstofu"
Hugvitsdrifinn útflutningur tengdur nýsköpun og tækni á sér umtalsverð sóknarfæri og mikil gróska er í frumkvöðlastarfsemi. Engar skorður gilda þegar kemur að útflutningi sem ekki krefst aðgengis að náttúruauðlindum. Útflutningur sem byggir á hugviti en ekki staðbundnum náttúruauðlindum gerir fyrirtækin hreyfanlegri á milli landa og byggir á öflugum mannauð, bæði innlendum og erlendum sérfræðingum. Þá standa menningarstarfsemi og skapandi greinar á Íslandi framarlega í alþjóðlegum samanburði.
Í ársskýrslunni er gerð ítarlega grein fyrir stefnunni, ferli stefnumótunarinnar og niðurstöðum hennar.
Í framhaldi af stefnumótunarvinnunni var skipulagi Íslandsstofu breytt til að styðja við stefnumótunina. . Það endurspeglar með skýrum hætti þær áherslur sem út úr stefnumótunarvinnunni komu og mun gera okkur kleift að innleiða stefnuna með árangursríkum hætti. Þá hefur verið gengið frá þjónustusamningi við ríkið um þjónustu Íslandsstofu í framhaldi af stefnumótuninni. Samningurinn kveður á um verkefni Íslandsstofu og fjármögnun þeirra og er hann til 5 ára.
Skipulagning sýninga, vinnustofa og sendinefnda með íslenskum fyrirtækjum er snar þáttur í starfsemi Íslandsstofu. Á árinu 2019 skipulagði Íslandsstofa og sá um þátttöku yfir eitt hundrað íslenskra fyrirtækja í viðburðum í 22 löndum. Alls sótti um ein milljón þátttakenda þessa viðburði sem ná til flestra útflutningsgreina. Ferðasýningar og vinnustofur í ferðaþjónustu eru fjölmargar og stórar sjávarútvegssýningar í Brussel, Boston og Kína eiga sér ríka hefð. En Íslandsstofa skipuleggur einnig viðburði til að kynna Ísland sem nýsköpunarland, fjárfestingarkost, sem tökustað fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti og ákjósanlega staðsetningu fyrir gagnaver svo nokkuð sé nefnt. Þá vinnur Íslandsstofa náið með kynningarmiðstöðum menningar að kynningu á skapandi greinum og á Íslandi sem landi þar sem gott er að búa og starfa fyrir erlenda sérfræðinga.
„Alls sótti um ein milljón þátttakenda þessa viðburði sem ná til flestra útflutningsgreina"
Íslandsstofa rekur fjölmörg markaðsverkefni í samvinnu við atvinnulífið. Með nýjum þjónustusamningi við ríkið er gert ráð fyrir að sum þessara verkefna breytist og verði hluti af almennri markaðssetningu Íslands undir merkjum Íslandsstofu. Gerð er ítarlega grein fyrir rekstri hvers markaðsverkefnis á árinu 2019 í skýrslunni. Þá hefur Íslandsstofa tekið að sér framkvæmd á markaðsverkefni fyrir íslenska ríkið sem miðar að því að markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn í framhaldi af COVID 19. Gert er ráð fyrir að verja yfir 1.500 milljónum króna til markaðsetningarinnar sem verður ýtt úr vör þegar réttar aðstæður hafa skapast.
Þjónusta á mörkuðum meðal annars veitt af viðskiptafulltrúum sem eru starfsmenn utanríkisráðuneytisins og staðsettir í 12 sendiskrifstofum um allan heim. Það er afar mikilvægt að gott samstarf sé milli viðskiptafulltrúa og Íslandsstofu og á árinu var unnið að því að þétta enn frekar það þjónustunet sem Íslandsstofa og viðskiptafulltrúarnir mynda á erlendum mörkuðum.
Eftir langt hagvaxtarskeið á Íslandi stöndum við nú frammi fyrir risavaxinni áskorun í kjölfar þeirrar farsóttar sem skekið hefur heimsbyggðina. En í öllum krísum felast tækifæri. Við Íslendingar erum í góðri stöðu til þess að snúa hjólum atvinnulífsins hratt í gang þegar aðstæður breytast. Þá er mikilvægt að markaðssetning sé í senn metnaðarfull og markviss. Íslandsstofa leikur þar mikilvægt hlutverk og er vel í stakk búin til að leiða þá vinnu með heildarhag að leiðarljósi.